Röfl |
laugardagur, 21. september 2002
Málsvörn... eða
indridi
18:12h
Málsmetandi menn hafa ýjað að því að athafnir mínar séu í hrópandi ósamræmi við skoðanir mínar, og því sé ég ómarktækur á allan hátt. Ástæðan er annars vegar áhugamál mitt og hins vegar stjórnmálaskoðanir. Þannig er mál með vexti að ég hef mikinn áhuga á veiði, bæði skotveiði og stangveiði og fer því gjarnan um íslenska náttúru vopnaður veiðistöng eða haglabyssu og veiði mér ýmist siglung, endur eða gæsir í matinn. Hisn vegar hef ég oft lýst því yfir að ég hafi miklar efasemdir um ýmis virkjanaáform sem menn hafa uppi á hálendi Íslands, og ber þar sérstaklega að nefna gerð uppistöðulóna á Eyjabökkum og í neðri hluta Þjórsárvera, auk hinnar risavöxnu stíflu við Kárahnjúka. Hin meinta mótsögn felst í því að ég vilji fyrir alla muni vernda varpsvæði heiðagæsa (og heimkynni silungs, ef út í það fer), en dundi mér svo við það í frístundum að rangla um þessi sömu svæði og drepa þessi sömu dýr. Reyndar er rétt að taka það fram að sá sem setti fram þessa gagnrýni gerði það ekki í mikilli alvöru, heldur í formi brandara. Samt sem áður sé ég mig knúinn til að svara því mér finnst vegið að mínum mikilvægustu gildum, og þau hlýt ég að verja fyrir hverri atlögu hversu máttlaus sem hún er. Því er fyrst til að svara að veiði á villtri bráð hefur mannkynið stundað frá örófi alda, svo athöfnin sem slík á ótvíræðan rétt á sér. Ef við svo berum lón á Eyjabökkum saman við t.d. skotveiði sést að þó þetta tvennt hafi það sameiginlegt að snerta líf og dauða gæsa á íslandi, þá er einn grundvallarmunur á. Hann er sá að veiðarnar eru sjálfbær nýting á náttúrunni. Jafnvel þó ég færi um Eyjabakka og skyti þar 300 gæsir hefði það ekki önnur áhrif en þau að næsta sumar hefðu 150 gæsapör sem að öðrum kosti hefðu fengið engin eða léleg hreiðurstæði verpt á betri stöðum og komið upp fleiri ungum en annars, og að ári væru hér aftur jafnmargar gæsir og hér eru nú. Skyti ég helming allra gæsa á Eyjabökkum tæki það stofninn líklega nokkur ár að fylla í skarðið, en innan fárra ára tækist það þó. Uppistöðulón á Eyjabökkum (eða Þjórsárverum) drepur reyndar fáar gæsir beint, þær drukna líklega ekki í lóninu enda ágætlega syndar. Hins vegar myndi slíkt lón kaffæra ótalmörg hreiðurstæði og beitarland gæsanna og þannig minnka stofninn verulega um alla framtíð. Málið er nefnilega ekki eins einfalt og sumir hafa haldið fram, að gæsirnar geti einfaldlega flogið "eitthvert annað" og verpt þar, til þess er einfaldlega ekki nóg gras á hálendinu. Og þetta er einmitt kjarni málsins; lónið veldur varanlegum breytingum á stofninum sem enginn vegur er að afturkalla, jafnvel þó lónið hverfi. Hófleg veiði hins vegar spillir ekki heimkynnum bráðarinnar, og auðvelt er að afturkalla allar stofnstærðarbreytingar af völdum skotveiða, einfaldlega með því að hætta að skjóta. Nákvæmlega sömu rök gilda um silunginn. Það er grundvallarmunur á því að útrýma silungi af stóru svæði og að fara með veiðistöng og veiða nokkrar bleikjur í soðið, og þeir sem til þekkja vita ða fyrr botnfrýs bæjarlækurinn hjá þeim vonda í neðra en að menn nái að gera silungsstofnum í íslenskum fjallavötnum varanlega skráveifu með veiðistöng að vopni. (framhald síðar...)
|
tengdur í 8223 daga
Síðast uppfært: 21.5.2002, 12:07 Youre not logged in ... Login
|